36. þing Alþýðusambands Norðurlands

28. október 2019

74 fulltrúar, frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi sátu 36. þing Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal 27. og 28. september 2019. Þingið tókst í alla staði mjög vel og var ein ályktun um lífeyrismál samþykkt samhljóða á þinginu.


Fjölmargir gestir mættu á þingið og voru með erindi. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, doktorsnemi við Háskólann á Akureyri, fjallaði um jafnréttisviðhorf og samfélagslegáhrif í minni byggðarlögum. Óðinn Elísson, hrl. hjá Fulltingi, fjallaði um muninn á slysatryggingum skv. kjarasamningi eða skaðatryggingum. Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri á Blönduósi, fjallaði um gagnaver Borealis Data Center á Blönduósi. Finnur Birgisson, fulltrúi Gráa hersins, ræddi stöðu eldri fólks í þjóðfélaginu og fjallaði um fyrirhugaða málsókn Gráa hersins gegn íslenska ríkinu vegna tekjutenginga/skerðinga í lífeyriskerfinu. Drífa Snædal, forseti ASÍ, fjallaði um verkalýðsmál og leiddi umræðu inn í panel sem formenn stéttarfélaga á þinginu ásamt henni voru í.


Ný stjórn AN

Vigdís Edda Guðbrandsdóttir, frá Samstöðu, var kosin nýr formaður AN. Með henni í stjórn eru Anna Júlíusdóttir, frá Einingu-Iðju, sem er varaformaður stjórnar og Guðný Grímsdóttir, frá Framsýn, sem er ritari stjórnar. Varamenn í stjórn eru Bjarki Tryggvason, frá Öldunni – stéttarfélagi, Svala Sævarsdóttir, frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, og Trausti Jörundarson, frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar.


Ályktun um lífeyrismál

36. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að samspil lífeyrissjóða launafólks og lífeyris almannatrygginga verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Liður í því gæti verið að hækka almenna frítekjumarkið.


Núverandi fyrirkomulag almannatrygginga gengur allt of langt í að skerða greiðslur úr lífeyrissjóðum og afkoma margra eldri borgara er því enn óviðunandi þrátt fyrir áratuga söfnun lífeyrisréttinda.


Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kveða á um að öllum beri að afla sér lífeyrisréttinda með því að greiða ákveðinn hluta launa í lífeyrissjóði. Þegar að lífeyristöku kemur, er sparnaður launafólks notaður til að skerða greiðslur almannatrygginga til lífeyrisþega um hátt í 45% af greiðslunni frá lífeyrissjóðum. Að teknu tilliti til skattgreiðslna, fær lífeyrisþegi með 100.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóðnum um 35% í sinn hlut. Fái viðkomandi 400.000 kr. á mánuði lækkar hlutfallið í 28%.1 Ávinningurinn af sparnaðinum, sem tryggja átti áhyggjulaust ævikvöld, rennur þess í stað að stærstum hluta í ríkissjóð.


36. þing AN lítur svo á að núverandi fyrirkomulag sé komið í ógöngur og krefst þess að dregið verði stórlega úr skerðingum lífeyris almannatrygginga vegna útgreiðslna úr lífeyrissjóðum. Vegna þessa efast launafólk um gagnsemi þess að greiða verulegan hluta launa sinna i lífeyrissjóð til að tryggja framfærslu sína á efri árum.


Þingið telur brýnt að launafólk njóti ávöxtunar af sparnaði sínum í samræmi við upphafleg markmið lífeyrissjóðakerfisins.


1 Skerðingarhlutföll eru fengin með því að bera saman tölur frá reiknivél TR. Miðað er við einstakling sem býr einn.


Eftir Ásgrímur Örn Hallgrímsson 7. október 2024
Á 38. þingi Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór í síðustu viku var samþykkt samhljóða að færa Kvennaathvarfinu á Akureyri kr. 500.000 til starfseminnar. Hvatning til sveitarfélaga Sveitarfélögin á Norðurlandi eystra voru um leið hvött til að tryggja samtökunum öruggt húsnæði sem mætir þörfum þeirra. Það á enginn að þurfa að efast um mikilvægi starfsemi kvennaathvarfsins og brýna nauðsyn þess að tryggja aðgengi að þjónustu þess. Starfssvæði Alþýðusamband Norðurlands er Norðurland og er hlutverk þess að vinna að alhliða hagsmunum aðildarfélaga og félagsmanna þeirra. Aðildafélög Alþýðusambands Norðurlands eru eftirtalin ellefu stéttarfélög: Aldan, stéttarfélag Eining-Iðja Byggiðn, Félag byggingamanna Félag málmiðnaðarmanna Akureyri Félag verslunar og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni Framsýn, stéttarfélag Samstaða Sjómannafélag Eyjafjarðar Sjómannafélag Ólafsfjarðar Verkalýðsfélag Þórshafnar Þingiðn
Eftir Ásgrímur Örn Hallgrímsson 7. október 2024
Á 38. þingi Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal 3. og 4. október 2024 var samþykkt samhljóða eftirfarandi ályktun um heilbrigðismál. Ályktun um heilbrigðismál 38. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að stjórnvöld tryggi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn, óháð búsetu, aldri eða efnahag. Hver vill ekki hafa aðgengi að lækni og öðru heilbrigðisstarfsfólki í sinni heimabyggð? Öflug heilbrigðisþjónusta eru sjálfsögð mannréttindi. Stjórnvöld hafa lengi talað fyrir hagræðingu í heilbrigðiskerfinu en þar hafa hljóð og mynd ekki farið saman. Hagræðingartillögur stjórnvalda hafa miðast við að draga úr útgjöldum ríkissjóðs við almenna heilbrigðisþjónustu á kostnað almennings í landinu. Áhrifin sjást einna best á landsbyggðinni þar sem dregið hefur verið markvisst úr sérfræðiþjónustu og skurðstofum sem og fæðingardeildum lokað og læknaskortur er viðvarandi á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Afleiðingarnar eru að sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa að ferðast langar vegalengdir, oft við erfiðar aðstæður, með óheyrilegum kostnaði og óþægindum. Þetta á ekki síst við um barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra sem í mörgum tilfellum þurfa að flytjast búferlum milli landshluta þar sem sérhæfð fæðingaraðstoð er ekki til staðar nema á fáeinum stöðum á landinu. Slík staða er einfaldlega ekki boðleg. Hagræðing og aukin samþjöppun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni má ekki felast í því að kostnaður sé færður yfir á sjúklinga, aðstandendur og stéttarfélög meðan ríkið losar sig undan ábyrgð. Að mati AN kemur ekkert annað til greina en að bæta úr þessari stöðu, enda markmið laga um heilbrigðisþjónustu að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu þjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Á sama tíma og heilbrigðiskerfið er vanfjármagnað stendur þjóðin frammi fyrir stórum áskorunum í heilbrigðismálum. Lífaldur lengist, lýðheilsuvandamál breytast, vaxandi þörf er á öflugri geðheilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu og forvörnum. Þá kallar breytt samsetning íbúa með fjölgun innflytjenda og vaxandi ferðamannastraumur á nýja nálgun í þjónustu. Forgangsraða þarf opinberu fé til að tryggja að heilbrigðiskerfið standi undir þessum áskorunum. 38. þing Alþýðusamband Norðurlands krefst þess að stjórnvöld fylgi eftir markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu og bæti þegar í stað aðgengi allra þegna landsins að viðunandi heilbrigðisþjónustu og tryggi þannig jafnan aðgang að heilsugæslu, sérfræðingum, hjúkrunarheimilum og nauðsynlegum lyfjum í heimabyggð. Til dæmis með því að auka verulega rekstrarfé til Sjúkrahússins á Akureyri og annarra heilbrigðis- og hjúkrunarheimila á Norðurlandi. Auk þess verði greiðsluþátttökukerfið endurskoðað, þar með talið kostnaður sjúklinga og aðstandenda, vegna vinnutaps, ferðalaga og dvalar í takt við útgjöld þeirra á hverjum tíma. Alþýðusamband Norðurlands er reiðubúið til að koma að þessari vinnu með stjórnvöldum, enda um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir félagsfólk, ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins.
Fleiri færslur